Auglýsingar og kynningarefni Orkunnar
Olís og Atlantsolía kvörtuðu til Neytendastofu yfir auglýsingum og kynningarefni Orkunnar þar sem fram kemur að Orkan bjóði ávallt upp á lægsta eldsneytisverðið eða ódýrasta eldsneytið. Fram kemur í kvörtununum að þegar tillit sé tekið til eldsneytismarkaðarins í heild, m.a. margvíslegra afslátta- og punktakerfa og þess að margir neytendur hafi undir höndum svokallaða eldsneytislykla, standist fullyrðingar Orkunnar ekki og séu brot á lögum.
Að mati Neytendastofu eru fullyrðingarnar ekki til þess fallnar að sýna afsláttakerfi Olís eða annarra í óhagstæðu ljósi. Þá telur Neytendastofa að með þeim sé ekki gert lítið úr öðrum afsláttakerfum. Það að vísa til þess að notkun Orkulykils veiti afslátt í formi króna en ekki „í punktum og kommum“ verður ekki talið leiða til þeirrar niðurstöðu að lítið sé gert úr slíkum afsláttakerfum heldur þess að Orkan bjóði ekki upp á slíkt afsláttakerfi þegar notast sé við eldsneytislykla.
Þótti Neytendastofu því fullyrðingar Orkunnar í auglýsingum og kynningarefni sem kvartað var yfir ekki gefa tilefni til aðgerða af hálfu stofnunarinnar.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.