Fara yfir á efnisvæði

Ófullnægjandi verðmerkingar á Akureyri

18.08.2014

Neytendastofa athugaði í júlí ástand verðmerkinga hjá apótekum, bakaríum, hárgreiðslustofum og einnig efnalaug á Akureyri. Aðeins fimm fyrirtæki af 12 voru með allar verðmerkingar í lagi.

Heimsótt voru fjögur bakarí og var aðeins eitt bakarí með verðmerkingarnar í lagi. Hjá Brauðgerð Axels, Kristjánsbakaríi og hjá Bakaríinu við brúna voru gerðar athugasemdir bæði við verðmerkingar í kæli og ýmsar vörur í borði.

Verðmerkingar voru skoðaðar í fimm apótekum. Gerð var athugasemd við Lyf og heilsu Hrísalundi og á Glerártorgi. Í Lyf og heilsu Hrísalundi var snyrtivörustandur óverðmerktur, gleraugnastandur og ýmsar vörur við kassa. Í Lyf og heilsu Glerártorgi vantaði verð á gleraugnastand, gos í kæli og á ýmsar vörur við kassa.

Farið var á tvær hársnyrtistofur og athugað hvort verðskrá yfir alla þjónustu væri sýnileg og einnig hvort söluvörur væru verðmerktar. Gerð var athugasemd við hársnyrtistofuna Hárkompan þar sem hvorki var sýnileg verðskrá né söluvörur verðmerktar.

Efnalaugin Hreint út var heimsótt og athugað var hvort verðskrá yfir alla helstu þjónustu væri til sýnis, kom í ljós að svo var ekki og mun því Hreint út auk annarra fyrirtækja sem ekki voru með verðmerkingar í lagi eiga von á bréfi frá Neytendastofu um að koma verðmerkingum sínum í betra horf.

Stofnunin hvetur neytendur til að vera á verði og koma ábendingum til skila í gegnum Mínar síður á vefslóðinni www.neytendastofa.is.

TIL BAKA