Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingarsektir staðfestar

09.09.2014

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest þrjár verðmerkingarsektir Neytendastofu sem kærðar voru til nefndarinnar. Um er að ræða 50.000 kr. sekt sem Neytendastofa lagði á Fiski Gallerý fyrir skort á verðmerkingum í versluninni og tvær 50.000 kr. sektir sem Neytendastofa lagði á Cafe Kringlan og Blátt fyrir að magnupplýsingar drykkja væri ekki að finna í matseðli á veitingastöðunum Cafe Klassík og Cafe Blu.

Í tilviki Fisk Gallerý voru gerðar athugasemdir við að þegar seinni heimsókn Neytendastofu fór fram hafi háannatími dagsins ekki verið byrjaður og unnið væri að því að þrífa verðskiltin. Um þetta segir í úrskurði áfrýjunarnefndar að fyrir liggi að brotið hafi verið gegn verðmerkingarreglum. Skyldan til verðmerkinga sé fortakslaus og verslanir geti ekki borið fyrir sig að sökum anna hafi starfsmenn ekki haft ráðrúm til að stilla upp verðmerkingum eða að heimsókn Neytendastofu bæri upp á óheppilegum tíma.

Af hálfu Cafe Klassík og Cafe Blu kom fram bætt hafði verið úr merkingunum þegar ákvarðanir Neytendastofu um sektir voru teknar. Í úrskurði áfrýjunarnefndar segir að það breyti ekki því að ástand verðmerkinga á veitingastöðunum hafi brotið gegn verðmerkingareglum þegar athuganir Neytendastofu voru gerðar.

Áfrýjunarnefnd taldi sektarfjárhæðir í öllum tilvikum hæfilegar og því væri ekki ástæða til lækkunar þeirra.

Sjá úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 3/2014 og í máli nr. 11/2013

TIL BAKA