Söluvörur illa verðmerktar í sundlaugum
Neytendastofa gerði könnun á ástandi verðmerkinga í sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu. Farið var í 16 sundlaugar og kannað hvort verðlisti yfir helstu þjónustuliði væri til staðar og einnig hvort söluvörur og veitingar væru verðmerktar.
Stofnunin gerði athugasemdir við fimm sundlaugar þar sem verðmerkingum var ábótavant en það var hjá Árbæjarlaug, Vesturbæjarlaug, Grafarvogslaug, Laugardalslaug og Lágafellslaug. Allar sundlaugarnar voru með verðskrá sýnilega en talsvert var af óverðmerktum söluvörum s.s sundgleraugum, handklæðum, sundhettum, kremum, drykkjum, sælgæti og bakkelsi.
Fulltrúi Neytendastofu mun fylgja þessari könnun eftir með annarri eftirlitsferð þar sem skoðað verður hvort tilefni er til að beita sektum.
Verðmerkingaeftirlit Neytendastofu er að miklu leyti byggt á ábendingum frá neytendum. Stofnunin hvetur neytendur því til að senda ábendingar um verslanir sem ekki fara að verðmerkingareglum. Það er hægt að gera með því að skrá sig inn á Mínar síður á vefsíðu www.neytendastofa.is