Ákvörðun um samanburð Hringdu á síma- og internetþjónustu
Neytendastofu barst kvörtun frá Tal yfir samanburðarauglýsingum Hringdu þar sem borið var saman verð á síma- og internetþjónustu hjá Hringdu og Tal, Vodafone og Símanum.
Kvörtunin snéri m.a. að því að fullyrðingar um að heimasíma- og internetþjónusta væri ódýrari hjá Hringdu væru almennar og samanburður á verði væri óháður notkun sem hafi áhrif á endanlegt verð sem neytendur greiði.
Í ákvörðuninni er um það fjallað að Neytendastofa geri ekki athugasemdir við að borin séu saman mánaðargjöld og önnur föst gjöld án þess að litið sé til kostnaðar sem háður er notkun. Notkunin er mjög ólíkir milli neytenda og jafnvel milli mánaða hjá sömu neytendum og því er ómögulegt að bera saman endanlegt verð. Þegar borið er saman mánaðargjald á þjónustu sem inniheldur önnur viðbótargjöld verður þó að koma skýrt fram að samanburðurinn eigi einungis við um mánaðargjöldin. Í auglýsingum Hringdu var það ekki tiltekið með nægilega skýrum hætti og því taldi stofnunin auglýsingarnar brjóta gegn góðum viðskiptaháttum.
Kvörtun Tals snéri jafnframt að því að ekki kæmi fram í auglýsingunum hvaða viðbótarþjónusta væri innifalin í þjónustu fyrirtækjanna en að mati Neytendastofu var ekki ástæða til að gera kröfu um það miðað við framsetningu auglýsinganna og þeirra upplýsinga sem þar komu fram.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.