Fara yfir á efnisvæði

Auglýsingar um fimm ára ábyrgð á Toyota bílum

19.09.2014

Neytendastofu barst kvörtun Toyota á Íslandi hf. þar sem kvartað var yfir auglýsingum Úranusar ehf., sem rekur Stóru bílasöluna. Meðal annars var kvartað yfir auglýsingum Úranusar um fimm ára ábyrgð. Toyota hafi fyrst íslenskra bifreiðafyrirtækja boðið fimm ára ábyrgð og greiði framleiðanda sérstaklega fyrir hana. Ábyrgð Úranusar sé því ekki sambærileg og sé félagið að nýta sér auglýsingar Toyota. Ábyrgðartími byrji að líða við skráningu en ekki sölu og því sé ábyrgðin í raun og veru ekki full fimm ár fyrir kaupendur. Einnig var kvartað yfir því að Úranus hafi einnig birt auglýsingar þar sem borin voru saman verð félagsins og Toyota á Íslandi en þau verð Toyota á Íslandi hafi verið röng.


Af hálfu Úranusar var öllum ásökunum Toyota á Íslandi hafnað. Úranus veiti fimm ára ábyrgð og sé öll ábyrgð umfram hefðbundna verksmiðjuábyrgð til þriggja ára, á herðum félagsins. Hvergi í auglýsingum sé vísað til ábyrgðar Toyota á Íslandi og félagið geti ekki átt einkarétt á því að bjóða fimm ára ábyrgð. Þau verð sem Úranus hafi vísað til í auglýsingum sínum hafi komið beint úr verðlista Toyota á Íslandi frá því í febrúar það ár sem auglýsing birtist.


Neytendastofa taldi auglýsingar Úranusar um fimm ára ábyrgð villandi fyrir neytendur. Hugsanlegir kaupendur hefðu þann skilning að ábyrgðartími byrji að líða frá kaupum en ekki skráningardegi bifreiðar. Að auglýsa fimm ára ábyrgð án þess að geta þess sérstaklega að ábyrgðartími væri þegar byrjaður að líða við kaup væri því brot á ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Að lokum var talið að auglýsingar Úranusar, þar sem verð félaganna voru borin saman, brytu gegn ákvæðum sömu laga. Verðlagning Toyota á Íslandi var miðuð við verðlista frá því í febrúar en auglýsingar birtust í maí þegar nýr verðlisti var kominn til sögunnar þar sem mörg verð höfðu lækkað. 


Var Úranusi því bannað að auglýsa fimm ára ábyrgð án frekari tilgreiningar og að telja ábyrgðartíma byrjaðan að líða frá skráningardegi en ekki við afhendingu. Var Úranusi einnig bannað að birta samanburðarauglýsingar þar sem ekki er stuðst við ný og uppfærð verð sem eru í gildi þegar auglýsing birtist.


Toyota á Íslandi kvartaði einnig yfir því að Úranus auglýsti bíla sína sem nýja þrátt fyrir að þeir væru skráðir notaðir. Neytendastofa taldi hins vegar að auglýsingar Úranusar um nýja bíla væru ekki villandi þar sem mat neytandans á því hvað væri nýr bíll snérist ekki um skráningarskírteini frá Umferðarstofu heldur framleiðsluár og raunverulega notkun bíls. Bifreiðar væru því sannanlega nýjar þótt þær væru skráðar til landsins sem notaðar. 
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA