Seinni heimsókn Neytendastofu á dekkjaverkstæði
Neytendastofa kannaði dekkjaverkstæði höfuðborgarsvæðisins í október sl. í þeim tilgangi að athuga hvort verðskrár væri sýnileg fyrir viðskiptavini. Þessari könnun var svo fylgt eftir og var farið á þau 14 dekkjaverkstæði sem stofnunin hafði gert athugasemdir við í fyrri heimsókn.
Níu verkstæði höfðu farið að fyrirmælum Neytendastofu og bætt verðmerkingar sínar en á Kvikk fix Hvaleyrarbraut, Bíla áttunni Smiðjuvegi, Max 1 Bíldshöfða, Vöku Skútuvogi, og Bílkó Smiðjuvegi vantaði enn sýnilega verðskrá. Tekið verður í framhaldinu ákvörðun um hvort leggja skuli sektir á þessi fimm dekkjaverkstæði fyrir að virða að vettugi tilmæli og ábendingar Neytendastofu um að koma verðmerkingum í viðunandi horf.
Neytendastofa heldur stöðugt áfram eftirliti með verðmerkingum og hvetur neytendur eindregið til að koma ábendingum til skila í gegnum rafrænt ábendingakerfi stofnunarinnar á www.neytendastofa.is