Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa kannar verðupplýsingar bílasala

17.12.2014

Neytendastofa kannaði í haust verðmerkingar á bílasölum og vefsíðum bílasala. Farið var í 31 bílasölu á höfuðborgarsvæðinu og athugað hvort verðskrá yfir þjónustu bílasala væri sýnileg á staðnum sem dæmi þarf söluþóknun að koma skýrt fram. Gerðar voru athugasemdir við fjórar bílasölur. Neytendastofa fylgdi könnuninni eftir og höfðu þá allar bílasölur fyrir utan eina lagað verðmerkingar á sölustað.

Skoðaðar voru 51 vefsíða bílasala víðsvegar um landið. Athugað var hvort söluþóknun væri á vefsíðu fyrirtækisins og hvort allar upplýsingar svo sem heimilisfang, kennitala, netfang, vsk.númer, hlutafélagaskrá og starfsleyfi frá lögreglustjóra eða sýslumanni kæmi fram. Þegar vefsíðurnar voru skoðaðar kom í ljós að engin þeirra var í lagi.

Á vefsíðum bílasala er skylt að gefa upp verð fyrir þjónustu með endanlegu verði í íslenskum krónum. Endanlegt söluverð er verð með virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum. Ef annar kostnaður bætist við þarf að taka það sérstaklega fram. Lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu taka til allra þeirra sem veita rafræna þjónustu. Lögin gilda bæði um rafræna þjónustu sem einn þjónustuveitandi veitir öðrum sem og um þjónustu sem þjónustuveitandi veitir neytenda. Rafræn þjónusta er skilgreind sem sú þjónusta sem almennt er veitt gegn greiðslu, úr fjarlægð, með rafrænum búnaði að beiðni þess einstaklings sem þiggur þjónustuna.

Við skoðun á síðunum kom í ljós að flestar athugasemdir voru gerðar þar sem vantaði upplýsingar um söluaðilann og þar sem vantaði sýnilega söluþóknun á flestar vefsíður. Í kjölfar athugasemda Neytendastofu voru gerðar viðeigandi úrbætur hjá 42 fyrirtækjum, þ.e. 83% fyrirtækjanna. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort beita skuli fyrirtækin viðurlögum fyrir að virða að vettugi fyrirmæli og ábendingar Neytendastofu um að koma verðmerkingum og upplýsingum á vefsíðum sínum í viðunandi horf.

TIL BAKA