Innköllun á kertum
Neytendastofu vekur athygli á innköllun Gies á kertum vegna mögulegrar slysahættu. Í tilkynningu frá umboðsaðila Gies á Íslandi, Ölgerðinni, kemur fram að þýski kertaframleiðandinn Gies hafi ákveðið að innkalla kubbakerti vegna slysahættu. Kubbakertin eru í stærðum 100x58, 130x58, 160x58 og 200x68 og í öllum litum sem seld hafa verið í verslunum. Ástæða innköllunar er sú að það hafa borist þrjár tilkynningar á Íslandi um að kertin brenni óeðlilega hratt niður og geti því valdið hættu. Brunahætta er sérstaklega mikil ef um er að ræða kerti í skreytingu. Vitað er um eitt tilvik þar sem einstaklingur brenndi sig. Gies hefur því brugðist við með því að innkalla þessi kerti.
Þeir sem keypt hafa slík kerti eru beðnir um að nota þau ekki, heldur skila þeim til Ölgerðarinnar (aðalinngangur, Fosshálsmegin) gegn fullri endurgreiðslu eða úttekt á nýrri vöru. Kertin hafa verið til sölu víða um land, meðal annars í Bónus, 10/11, Fjarðarkaup, Hagkaup, Krónunni, Nóatúni og Samkaup.
Í tilkynningu er beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem af þessu kunna að hafa hlotist.
Þeir sem keypt hafa kertin geta fengið nánari upplýsingar í síma 412-8000 eða með tölvupósti á olgerdin@olgerdin.is.