Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingaeftirlit á Akureyri skilar árangri

02.02.2015

Fulltrúar Neytendastofu fóru í desember á Akureyri til að athuga hvort þau 36 fyrirtæki sem höfðu fengið tilmæli um að lagfæra verðmerkingar hjá sér væru búin að því. Í heildina voru 78% fyrirtækja búin að bæta verðmerkingar sínar frá því í sumar sem sýnir að eftirlit Neytendastofu skilar árangri.

Farið var í fimm matvöruverslanir og höfðu þrjár þeirra bætt verðmerkingar sínar. Í Samkaup Strax, bæði Borgarbraut og Byggðarvegi, var enn mikið af óverðmerktum vörum auk þess sem talsvert ósamræmi var á milli hillu og kassaverðs.

Í verslunum með sérvöru og höfðu 19 af 21 farið að tilmælum Neytendastofu. Í fyrri ferð vantaði sérstaklega verðmerkingar í glugga og voru allflestir búnir að koma því í lag núna. Athugasemdir voru þó gerðar við Heilsuhúsið og Halldór Ólafsson þar sem enn vantaði talsvert upp á verðmerkingar í gluggum.

Í Húsasmiðjunni voru miklar framfarir í verðmerkingum en athugasemdir gerðar við Blómaval. Í Efnalauginni Hreint út var verðlisti til staðar en ekki nægjanlega sýnilegur viðskiptavinum. Hjá hárgreiðslustofunni Hárkompunni vantaði enn verðlista og voru söluvörur einnig óverðmerktar. Tvær bensínstöðvar höfðu fengið athugasemdir við vermerkingar og í seinni ferð voru gerðar og athugasemd við N1 Hörgárbraut þar sem í mörgum tilvikum vantaði verðmerkingar eða þær voru ekki réttar. Auk þessa voru verðmerkingar skoðaðar í þremur bakaríum og tveimur apótekum sem öll höfðu fullnægjandi verðmerkingar.

Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort beita skuli þessi átta fyrirtæki sektum fyrir að virða að vettugi tilmæli Neytendastofu um að koma verðmerkingum í viðunandi horf.

Neytendastofa hvetur neytendur til að vera á verði og koma ábendingum til skila í gegnum rafræna neytendastofu á vefslóðinni www.neytendastofa.is.

TIL BAKA