Fara yfir á efnisvæði

Samanburðarauglýsingar Pennans brutu ekki gegn lögum

23.02.2015

Neytendastofu barst kvörtun frá A4 vegna auglýsinga Pennans á skólavörum en auglýsingarnar höfðu verið sendar meðlimum vildarklúbbs Pennans með tölvupósti. Taldi A4 að auglýsingarnar fælu í sér villandi samanburð.

Í auglýsingunni sem bar fyrirsögnina „Við erum ódýrari“, var gerður verðsamanburður við vörur keppinauta, þar á meðal A4. Tekið var fram að upplýsingarnar væru teknar saman eftir skólainnkaupalista fyrir 1. bekk og að verð væru fengin af listum sem verslanirnar hefðu sjálfar tekið saman og birt á heimasíðum sínum.

Neytendastofa taldi ljóst að um samanburðarauglýsingu væri að ræða og að gera yrði strangar kröfur til slíkra auglýsinga. Eigi það sérstaklega við þegar fjölbreytt úrval af vörutegundum er borið saman. Í þeim tilvikum þurfi sérstaklega að vanda valið bæði með tilliti til verðs og gæða auk þess sem vörurnar þurfa að fullnægja sömu þörfum eða vera ætlaðar til sömu nota.

Neytendastofa taldi ekki sýnt fram á að samanburður Pennans væri villandi, rangur eða tæki til ólíkra vara. Við það mat var m.a. litið til þess að um var að ræða samanburð á innkaupalistum sem hver og ein verslun tók saman sjálf. Neytendastofa taldi því að fullyrðing Pennans í auglýsingunni „Við erum ódýrari“ hefði verið sönnuð og því ekki tilefni til aðgerða vegna auglýsingarinnar.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA