Tilboðsvörur ekki verðmerktar í bakaríum
Dagana 17. – 19. febrúar sl. gerði Neytendastofa athugun á ástandi verðmerkinga í 46 bakaríum á höfuðborgarsvæðinu. Athugað var hvort verðmerkingar væru í lagi í borði, gos- og mjólkurkælum og öðrum hillum sem voru til staðar.
Athugasemdir voru gerðar við 13 bakarí, af þeim voru fimm verslanir Bakarameistarans en þær voru Bakarameistarinn Austurveri, Glæsibæ, Húsgagnahöllinni, Smáratorgi og Suðurveri, stofnunin gerði einnig athugasemd við Jóa Fel Holtagörðum, Hringbraut, Kringlunni og Litlatúni, Kökuhornið Bæjarlind, Hverafold Bakarí, Fjarðarbakarí í Grafarholti og Sveinsbakarí Hólagörðum.
Sérstaklega var tekið eftir vörum sem voru á tilboði t.d rjómabollur sem voru merktar með 50% afslætti eða tvær fyrir eina en upprunalegt verð rjómabollanna kom hvergi fram. Upprunalegt verð vöru sem er á útsölu eða á tilboði þarf alltaf að koma skýrt fram.
Þetta er mikil afturför frá síðustu könnun sem gerð var haustið 2013 en þá voru verðmerkingar í borði í góðu lagi hjá 92% bakaría en nú aðeins 77%. Framför var þó á verðmerkingum í kælum þar sem 83% voru í lagi núna miðað við 69% árið 2013.
Augljóst er að verðmerkingar í bakaríum eru langt frá því að vera viðunandi og þurfa fyrirtækin að fara vel yfir verðmerkingar og verklag í bakaríum sínum og bregðast fljótt við tilmælum Neytendastofu til að forðast sektir.
Við viljum hvetja neytendur til að halda áfram að senda inn ábendingar í gegnum heimasíðu Neytendastofu, www.neytendastofa.is.