Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu staðfest

06.03.2015

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu nr. 8/2014 þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að Íslandsbanki hafi brotið gegn upplýsingaskyldu sinni samkvæmt lögum um neytendalán.

Upplýsingagjöfin sem deilt var um snéri að tilgreiningu verðbóta í heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Með úrskurði áfrýjunarnefndar er því staðfest sú ákvörðun Neytendastofu að það hafi ekki samræmst þágildandi lögum um neytendalán að miða við 0% verðbólgu út lánstímann í upplýsingum til neytanda þegar samningur var gerður.

Samkvæmt ákvörðun Neytendastofu og úrskurður áfrýjunarnefndar braut Íslandsbanki því gegn ákvæðum laga um neytendalán. Hvorki Neytendastofa né áfrýjunarnefnd neytendamála hafa heimild til að kveða á um hvernig fara skuli með endurgreiðslur samningsins í ljósi brotsins. Aðilar verða að leysa úr því sín í milli með samkomulagi, fyrir úrskurðanefnd í viðskiptum við fjármálafyrirtæki eða eftir atvikum að fela dómstólum að leysa úr slíkri kröfu.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA