IKEA innkallar PATRULL KLÄMMA og PATRULL SMIDIG öryggishlið
Neytendastofa vekur athygli á innköllun IKEA á PATRULL KLÄMMA og PATRULL SMIDIG öryggishliðum sem fest er með þvingum, en það getur skapast slysahætta ef hliðin eru notuð efst í stigaop.
Í tilkynningu frá IKEA kemur fram að borist hafa tilkynningar um að núningsmótstaðan milli veggjarins og þvingunnar á öryggishliðinu hafi ekki verið næg til að halda hliðinu á sínum stað. Þar að auki sé hætta á að hrasa um kantinn neðst. Ef öryggishliðið er sett upp efst í stigaop getur því skapast slysahætta. Þrjár tilkynningar hafa borist á heimsvísu um börn sem hafa slasast eftir fall niður stiga. Ekki er vitað til þess að slíkt hafi gerst hér á landi. Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að það sé öruggt að nota PATRULL KLÄMMA og PATRULL SMIDIG öryggishliðin með þvingum í dyraop á milli herbergja eða neðst í stigaop.
Neytendur sem vilja halda PATRULL KLÄMMA eða PATRULL SMIDIG öryggishliðinu sínu og nota það á milli herbergja eða neðst í stiga geta sett sig í samband við IKEA og fengið uppfærðar notkunarleiðbeiningar og viðvörunarmiða til að setja á öryggishliðið.
Þeir sem vilja skila PATRULL KLÄMMA eða PATRULL SMIDIG öryggishliði með dagsetningarstimplinum 1510 (ár/vika) eða eldri, geta komið með það í verslunina og fengið að fullu endurgreitt. Einnig er hægt að fá framlengingar á hvaða PATRULL öryggishlið sem er endurgreitt. Ekki er nauðsynlegt að sýna kvittun til að fá endurgreitt.
PATRULL KLÄMMA og PATRULL SMIDIG öryggishlið hafa verið seld í IKEA frá
1. ágúst 1995.
Nánari upplýsingar má finna á www.IKEA.is og í þjónustuveri IKEA í síma 520 2500.