Fara yfir á efnisvæði

Viljayfirlýsingu á milli Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína

12.06.2015

Innanríkisráðuneytið og Stjórnardeild Alþýðulýðveldisins Kína um gæðaeftirlit, skoðanir og sóttvarnir hafa undirritað viljayfirlýsingu á milli ríkjanna eða MOU (e. Memorandum of Understanding). Samkomulagið hefur verið í vinnslu síðan Liu Yuting, aðstoðarráðherra heimsótti Ísland árið 2013. Frá þeim tíma hafa sérfræðingar skipst á drögum sem eru nú endanleg og var yfirlýsingin undirrituð þann 11. júní síðastliðinn.

Ísland flytur inn margskonar vörur frá Kína enda er Kína eitt stærsta framleiðsluríki á vörum í heimi, ekki síst neytendavörum. Ísland, vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, hefur innleitt hér á landi alla löggjöf Evrópusambandsins sem gildir um öryggi vöru og samræmi hennar við lagalegar kröfur sem eiga við á innri markaði ESB og EES-ríkjanna.

Þannig er CE-merkið skyldubundið hér þegar um er að ræða framleiðslu vöru sem fellur undir samhæfða löggjöf ESB. Innanríkisráðuneytið ber ábyrgð á löggjöf sem gildir um almennt öryggi vöru og það er Neytendastofa sem fer með framkvæmd laganna en Neytendastofa er einnig RAPEX tengiliður fyrir Ísland. (RAPEX: Rapid Alert Exchange System, Kerfi fyrir hraðvirk upplýsingaskipti um innköllun á vörum).

Neytendastofa þarf við markaðseftirlit að geta sannreynt hvort að vara sé í samræmi við lagalegar kröfur og athugað hvort upplýsingar sem stofnunin fær um vöruna séu réttar. Undirritun á þessari yfirlýsingu mun gera það mögulegt að hafa samband við stjórnvöld í Peking og óska eftir aðstoð þeirra við athugun á slíkum upplýsingum. Þetta mun verða að verulegu gagni bæði fyrir Kína og Ísland. Yfirlýsingin er einnig til þess fallin að styrkja enn frekar viðskipti og viðskiptasamband milli ríkjanna, sem er öllum til hagsbóta.

Sjá nánar frétt hjá innanríkisráðuneytinu.

TIL BAKA