Ástand verðmerkinga á Hellu og Hvolsvelli
Neytendastofa kannaði verðmerkingar hjá fyrirtækjum á Hellu og Hvolsvelli þann 7.júlí sl. Farið var í 15 fyrirtæki og fengu sex þeirra fyrirmæli frá Neytendastofu um að bæta ástand verðmerkinga.
Farið var í tvær matvöruverslanir, Kjarval á Hellu og Kjarval á Hvolsvelli. Stofnunin gerði athugasemd við báðar verslanir þar sem talsvert var af óverðmerktum vörum á báðum stöðum en í Kjarval á Hellu fannst einnig mikið af ósamræmi á hillu og kassaverði.
Tvö apótek voru heimsótt Apótekarinn Suðurlandsveg, Hellu og Apótekarinn Austurvegi, Hvolsvelli. Á báðum stöðum var mikið af óverðmerktum vörum, snyrtivörustandar illa verðmerktir og vörur á tilboði ekki merktar með upprunalegu verði, einungis merktar með 30% afslætti.
Farið var á fjórar bensínstöðvar og gerði stofnunin athugasemd við tvær þeirra., Mikið var af óverðmerktum vörum hjá Olís á Hellu og kælir með ís alveg óverðmerktur, á N1 Hlíðarenda vantaði verð á sælgæti og einnig fannst ósamræmi á verði á tveim vörum, Flórídana sem merktur var á 144 kr í hillu kostaði 155 kr þegar komið var á kassa og Colgate tannburstasett var merkt á 667 kr í hillu en kostaði 788 kr á kassa sem gerir 121 kr verðmun.
Einnig var farið í bakarí, byggingavöruverslun, hárgreiðslustofu og sérvöruverslanir þar kom allt vel út og voru ekki gerðar neinar athugasemdir við verðmerkingar þar.
Neytendastofa hvetur neytendur til að vera á verði og koma ábendingum til skila í gegnum Mínar síður á heimasíðunni neytendastofa.is.