Fara yfir á efnisvæði

Það þarf að bæta verðmerkingar í Vestmannaeyjum

27.07.2015

Neytendastofu hafa í gegnum tíðina borist fjöldi ábendinga varðandi verðmerkinga í Vestmannaeyjum. Fulltrúar stofnunarinnar fóru í kjölfar þess til Vestmannaeyja í byrjun júlí og gerðu könnun á því hvort verðmerkingar hjá verslunum uppfylltu skilyrði laga og reglna. Þær athugasemdir sem gerðar voru við verslanir í Vestmannaeyjum voru m.a. að verðmerkingar skorti í sýningarglugga verslana en verslunum er skylt að verðmerkja vöru þar sem hún er boðin til sölu þ.m.t. í sýnargluggum eða á sölusíðum á netinu. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við óverðmerktar vörur í matvöruverslunum og í einhverjum tilvikum vantaði skanna til að fá endanlegt verð á forpakkaðar vörur.

Veitingastöðum ber skylda til að hafa matseðil við inngang til að mögulegir viðskiptavinir geti kynnt sér úrval og verð áður en gengið er til borðs. Þá eiga magnupplýsingar drykkja að koma fram á matseðli og sé selt áfengi skulu vínmál vera löggilt. Eftir könnunina er ljóst að veitingastaðir í Vestmannaeyjum þurfa að bæta úr þessum atriðum til að geta veitt viðskiptavinum sínum þjónustu í samræmi við lög og reglur.

Að öðru leyti voru verðmerkingar í Vestmannaeyjum í ágætu horfi en Neytendastofa mun fylgja könnuninni eftir og ganga úr skugga um að úrbætur verði gerðar.

Neytendastofa mun halda áfram verðmerkinga- og verðkannanaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri verslunum. Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni neytendastofa.is.

TIL BAKA