Máli vísað frá áfrýjunarnefnd neytendamála
Kredia ehf. og Smálán ehf. kærðu til áfrýjunarnefndar neytendamála þá ákvörðun Neytendastofu að leggja dagsektir á félögin þar til farið yrði að ákvörðun Neytendastofu nr. 28/2014 um útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
Á meðan málið var til meðferðar hjá áfrýjunarnefndinni breyttu Kredia og Smálán skilmálum sínum og lánafyrirkomulagi. Töldu félögin að með þessu væri gjaldtakan orðin í fullu samræmi við ákvæði laga um neytendalán og óskuðu eftir því að málinu yrði vísað frá áfrýjunarnefnd neytendamála. Áfrýjunarnefndin féllst á að vísa málinu frá en tók sérstaklega fram að ákvörðun Neytendastofu um dagsektir standi óhögguð og heldur gildi sínu þar til Neytendastofa hafi tekið afstöðu til þess hvort brugðist hafi verið við ákvörðuninni með fullnægjandi hætti, bærist stofnuninni erindi frá félögunum þar að lútandi.
Úrskurðinn má lesa hér.