Fara yfir á efnisvæði

Aðeins ein vefsíða í lagi

25.08.2015

Neytendastofa gerði könnun á 15 íslenskum vefsíðum sem selja barnafatnað á netinu. Athugað var hvort vefsíðurnar uppfylltu kröfur um merkingar á fatnaði og hvort fullnægjandi upplýsingar væru að finna um viðkomandi söluaðila. Af þeim síðum sem skoðaðar voru var aðeins ein vefsíða í lagi en það var vefsíða verslunarinnar Tvö líf. Fullnægjandi upplýsingar um söluaðilann vantaði á 12 vefsíðum, aðallega var um að ræða að það vantaði nafn og kennitölu fyrirtækisins sem og virðisaukanúmer. Einnig vantaði upplýsingar um textíl merkingar á barnafatnaðnum hjá 11 vefsíðum.

Neytendur eru í auknum mæli að versla fatnað á netinu. Þeir eiga að geta séð alveg eins og þegar varan er keypt í verslun úr hverju flíkin er, til dæmis hvort varan sé úr 100% bómull eða bómullarblöndu, eða hvort hún sé úr polyester. Þó að það sé ekki krafa að birta þvottaleiðbeiningar á vefsíðum þá hvetjum við söluaðila til að birta þær líka. Góð regla er að allar þær merkingar og leiðbeiningar sem fylgja vörunni séu einnig aðgengilegar á netinu.

Neytendur eiga einnig að geta séð hver seljandi er og þess vegna á að koma fram nafn fyrirtækis, heimilisfang þar sem fyrirtækið hefur staðfestu, kennitala, netfang, vsk.númer og sú opinbera skrá sem fyrirtækið er skráð hjá, svo sem firmaskrá.

Jafnframt er rétt að benda á að Neytendur eiga að geta séð hvort að það séu bönd á fatnaðnum, en ákveðnar reglur gilda um bönd og reimar í barnafatnaði til dæmis eru bönd í hettum eða hálsmáli fyrir börn undir 7 ára alveg bönnuð vegna kyrkingarhættu

TIL BAKA