Slæmt ástand verðmerkinga á Hellu og Hvolsvelli
Neytendastofa gerði könnun í júlí sl. á ástandi verðmerkinga hjá 15 fyrirtækjum á Hellu og Hvolsvelli. Þessari könnun var svo fylgt eftir í lok ágúst og var ástand skoðað hjá þeim sex verslunum sem stofnunin hafði gert athugasemdir við eftir fyrri heimsókn. Aðeins Apótekarinn á Hvolsvelli hafði komið verðmerkingum sínum í lag en í matvöruverslunum Kjarvals á Hellu og á Hvolsvelli, Apótekaranum á Hellu og á bensínstöðvunum Olís á Hellu og N1 á Hvolsvelli var verðmerkingum enn ábótavant. Tekin verður ákvörðun í framhaldinu hvort beita skuli þessum fyrirtækjum sektum fyrir að virða að vettugi tilmæli og ábendingar Neytendastofu um úrbætur á ástandi verðmerkinga.
Neytendastofa heldur stöðugt áfram eftirliti með verðmerkingum og hvetur neytendur eindregið til að koma ábendingum til skila í gegnum rafrænt ábendingakerfi stofnunarinnar á www.neytendastofa.is