Fara yfir á efnisvæði

Skorkort neytendamála sýnir þörf á úrlausnarleiðum utan dómstóla

23.09.2015

Skorkort neytendamála fyrir árið 2015 sýnir að markaður fyrir rafræn viðskipti yfir landamæri hefur enn tækifæri til að stækka. Aðspurðir svörðu 61% neytenda því að þeir upplifi sig öruggari í viðskiptum í sínu ríki heldur en yfir landamæri. Skorkortið, sem einblínir að þessu sinni á rafrænan innri markaði, leiðir einnig í ljós að vantraust, landfræðilegar hindranir og mismunun í verði eru enn helstu hindranirnar fyrir rafræn viðskipti yfir landamæri.

Evrópusambandið mun leggja fram tillögu fyrir árslok til að greiða fyrir rafrænum viðskiptum. Tillögurnar munu m.a. fela í sér reglur um skilmála og neytendavernd við rafræn viðskipti.

Helstu niðurstöður skorkortsins eru eftirfarandi:
• Neytendur sem eiga viðskipti yfir landamæri lenda enn í mörgum vandræðum, helst varðandi afhendingu og að varan sé í samræmi við það sem samið var um.
• Þörf er á aukinni fræðslu um réttindi neytenda.
• Þróun úrskurðanefnda (Alternative Dispute Resoulution ADR) kemur til með að verða réttarbót fyrir neytendur.
• Traust á öryggi vöru hefur verið stöðug síðustu ár.

Þegar litið er sérstaklega á niðurstöður Skorkortsins fyrir Ísland má sjá að Ísland skorar yfir meðaltal í þekkingu á réttindum sínum og trausti neytenda gagnvart seljendum. Seljendur á Íslandi eru einnig yfir Evrópumeðaltali þegar litið er til þekkingar þeirra á kærunefndum og vilja til að fara með deilumál til slíkra nefnda. Þrátt fyrir það er hærra hlutfall seljenda sem þekkir ekki slíkar úrlausnarleiðir. Í þessu samhengi þarf einnig að líta til þess að samkvæmt niðurstöðum Skorkortsins eru er á Íslandi næstlægsta hlutfall yfir neytendur sem kvarta yfir óréttmætum viðskiptaháttum og neytendur á Íslandi eru ólíklegir, borið saman við neytendur í öðrum ríkjum, til að tilkynna vandamál með vöru.

Í ljósi niðurstaðna Skorkortsins telur Neytendastofa að brýnt sé að tekin verði upp svokölluð ADR tilskipun Evrópusambandsins, sem kveður á um skyldu ríkja til að sjá til þess að neytendur hafi aðgang að úrlausnarnefndum utan dómstóla þegar vandamál í viðskiptum koma upp. Að sama skapi þarf að auka þekkingu bæði seljenda og neytenda á slíkum úrlausnarleiðum og virkja neytendur í að leita réttar síns þegar þeir telja á sér brotið.

Skorkortið ásamt fylgigögnum má skoða nánar hér:http://ec.europa.eu/consumers/consumer_evidence/consumer_scoreboards/11_edition/index_en.htm

TIL BAKA