Villandi samanburðarauglýsingar Gagnaveitunnar
Neytendastofu barst kvörtun frá Símanum vegna auglýsinga Gagnaveitunnar á ljósleiðara. Í auglýsingunum var vatnsglas og vatnsflaska meðal annars notuð sem myndlíking fyrir eiginleika ljósleiðara samanborið við aðra gagnaflutningstækni á markaði.
Að mati Neytendastofu var samlíkingu auglýsingarinnar ætlað að koma þeim skilaboðum á framfæri að önnur gagnaflutningstækni væri mun hægari en ljósleiðari. Auglýsingunni fylgdu hins vegar ekki neinar hlutlægar upplýsingar um mun á ljósleiðara og annarri tækni sem neytendur gætu nýtt til þess að taka upplýsta ákvörðun um viðskipti. Gátu neytendur því ekki staðreynt að samanburðurinn ætti rétt á sér.
Að mati Neytendastofu brutu auglýsingarnar því gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og var Gagnaveitunni bönnuð birting þeirra án þess að fullnægjandi samanburður væri gerður að viðlögum sektum.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.