Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingar í verslunum og á vefsíðum golfverslana

04.11.2015

Neytendastofa kannaði verðmerkingar og merkingar á vefsíðum golfverslana á Höfuðborgarsvæðinu. Skoðað var hjá Golfbrautin, Golfbúðin, Golfskálinn, Hole in One og Örninn Golfverslun.

Neytendastofa hefur aukið eftirlit með vefsíðum en í þessari könnun var athugað hvort að allar vörur á síðunni væru verðmerktar og einnig hvort að það væru allar upplýsingar til staðar um þjónustuveitandann. Neytendur eiga rétt á að sjá við hvern þeir versla, þeir eiga að geta séð nafn fyrirtækisins, heimilisfang þar sem fyrirtækið hefur staðfestu, kennitölu, netfang, virðisaukaskattnúmer, þeirri opinberu skrá sem fyrirtækið er skráð hjá og leyfisveitandi þar sem það á við.

Það var ein golfverslun Golfbrautin, sem var með verðmerkingar í lagi í búðinni og á vefsíðunni jafnfram sem allar upplýsingar um þjónustuveitandann var að finna á síðunni þeirra. Tvær verslanir Örninn Golfverslun og Golfbúðin voru ekki með verðmerkingarnar í lagi þar sem þó nokkuð var um óverðmerktar vörur.

Það vantaði verðmerkingar á vefsíðurnar hjá Golfbúðinni, Golfskálanum, Hole in One og Erninum Golfverslun Á vefsíðu Arnarins Golfverslunar vantaði einnig upplýsingar um fyrirtækið og sömu sögu er að segja um vefsíðu Golfbúðarinnar og Golfskálans.

Neytendastofa mun fylgja skoðuninni eftir og athugað verður hvort farið hafi verið eftir fyrirmælum stofnunarinnar um að bæta verðmerkingar og upplýsingar á vefsíðu. Við hvetjum neytendur til að vera ávallt vel á verði og koma ábendingum til stofnunarinnar á slóðinni www.neytendastofa.is

TIL BAKA