Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa sektar fyrir ófullnægjandi verðmerkingar

06.11.2015

Neytendastofa hefur í kjölfar eftirlits með verðmerkingum á Suðurlandi og í Reykjavík sektað sex fyrirtæki vegna ástands verðmerkinga hjá þeim.

Eftirlit Neytendastofu fólst í því að skoða almennt ástand verðmerkinga hjá fyrirtækjunum, hvort að það væri ekki samræmi milli hillu- og kassaverðs og hvort verðskannar væru til staðar. Gerðar voru athugasemdir við ástand verðmerkinga á flestum sölustöðum sem til skoðunar voru. Mikið var um óverðmerktar og ranglega verðmerktar vörur.

Þau fyrirtæki sem ekki sinntu fyrirmælum Neytendastofu um að koma ástandi verðmerkinga í viðunandi horf hafa nú verið sektuð. Þau fyrirtæki sem um ræðir eru Hoflandsetrið í Hveragerði, Lyf og heilsa vegna sölustaða Apótekarans á Hellu og í Hveragerði, Kaupás vegna Kjarvals á Hellu og Hvolsvelli, Olís á Hellu og við Arnberg á Selfossi, N1 á Hvolsvelli og Byko vegna sölustaða fyrirtækisns á Selfossi, við Smiðjuveg og á Fiskislóð.

Ákvarðanirnar má lesa hér.

TIL BAKA