Fara yfir á efnisvæði

Upplýsingagjöf í tengslum við neytendalán

20.11.2015

Neytendastofa hefur tekið ákvarðanir um að Heimkaup og Elko hafi brotið gegn lögum um neytendalán með því að birta ekki fullnægjandi upplýsingar á heimasíðum sínum um lán sem veitt eru til kaupa á vörum.

Í lögum um neytendalán segir með skýrum hætti hvaða upplýsingar eiga að koma fram um lán þegar þau eru auglýst. Lánveitendum er heimilt að auglýsa að þeir bjóði neytendum lán án þess að geta frekari upplýsinga en um leið og auglýst eru kjör, vextir eða mánaðarlegar afborganir þurfa ýmsar aðrar upplýsingar að koma fram.

Neytendastofa hefur haft til meðferðar mál vegna nokkurra smásala sem bjóða neytendum að fá lán við kaup á vörum. Langflestir hafa orðið við fyrirmælum stofnunarinnar og birt allar viðeigandi upplýsingar. Þar sem Heimkaup og Elko hafa ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína hefur Neytendastofa nú tekið ákvarðanir gagnvart fyrirtækjunum og gert þeim að bæta úr innan tveggja vikna. Að þeim tíma liðnum verði teknar ákvarðanir um dagsektir.

Hjá Elko vantaði árlega hlutfallstölu kostnaðar.

Hjá Heimkaup vantaði árlega hlutfallstölu kostnaðar og heildarfjárhæð sem neytandi þarf að greiða.

Ákvörðun nr. 48/2015 (Elko) má lesa í heild sinni hér.
Ákvörðun nr. 49/2015 (Heimkaup) má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA