Skoðun á forpökkuðum laxi og tígrisrækjum.
Neytendastofa skoðaði í byrjun desember forpakkaðan lax frá Betri vörum og forpakkaðar tígrisrækjur frá Innnes. Ákveðið var að skoða umræddar vörur eftir að athugasemdir bárust frá neytendum um að ekki væri samræmi á milli merkinga á umbúðum og nettóþyngdar vöru. Þyngd laxins var ekki í samræmi við það sem stóð á pakkningunni heldur var 20% lægra verð.
Tígrisrækjurnar frá Innnes eru seldar frosnar og kom ábending um að hlutfall íss væri of mikið miðað við uppgefið hlutfall. Á umbúðunum kemur fram að íshúðun er allt að 20%. Niðurstaða vigtunar á tígrisrækjunum var að uppgefinn þyngd var í samræmi við það sem vigtað var. Eins voru teknar prufur þar sem hlutfall íshúðunar var mælt og reyndist það innan uppgefinna marka.
Skoðaður var niðursneiddur reyktur lax og niðursneiddur grafinn lax frá Betri vörum. Þau sýnishorn sem skoðuð voru höfðu það öll sammerkt að umbúðirnar voru með sem uppgefin nettóþyngd vörunnar. Þetta þýddi að af uppgefinni þyngd vörunnar voru umbúðir um 20% af því sem neytandinn var að greiða fyrir. Ábyrgð á vigt vöru er hjá framleiðendum en þeim ber að tryggja að varan sé vegin á löggiltri vog og raunverulegt magn sé í samræmi við merkingar á umbúðum. Samkvæmt reglum um þyngd á forpökkuðum vörum mega pökkunaraðilar hafa innihald þyngra en uppgefið er þannig að neytendur hljóti góðs af en þeir mega ekki hlunnfara neytendur.
Könnunin sýnir enn og aftur að athuganir Neytendastofu að undanförnu á forpökkuðum vörum eru mikilvægar til að auka aðhald að markaðnum. Mikilvægt er að tryggja að forpakkaðar vörur uppfylli kröfur um þyngd. Það stuðlar bæði að réttmætum viðskiptaháttum og eflir neytendavernd.
Stofnunin mun halda áfram að taka við ábendingum og gera úrtaksskoðanir á ýmsum sviðum vöruviðskipta.