Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa lætur prófa öryggi barnarúma

16.02.2016

FréttamyndNeytendastofa tók þátt í evrópsku samstarfsverkefni á síðasta ári þar sem öryggi barnaferðarúma og barnarimlarúma var skoðað. Fjöldi slysa verður á hverju ári þar sem ung börn slasast vegna barnarúma. Foreldrar eiga að geta treyst því að börnin séu örugg í barnarimlarúmum eða barnaferðarúmum. Þetta er einn af fáum stöðum þar sem umsjónarmenn barna eiga að geta skilið þau eftir án eftirlits í einhvern tíma og er það ein af ástæðum þess að miklar kröfur eru gerðar varðandi öryggi rúma. Í Bandaríkjunum verða flest banaslys á börnum vegna barnarimlarúma. Flest slysin verða þar sem börn festast eða vegna þess að þau kyrkjast. Yfir 17.000 slys á börnum 0-4 ára voru skráð í Evrópu á tveggja ára tímabili en þau eru eflaust fleiri þar sem mörg ríki skrá ekki slysatíðni. Vegna þessa tóku sig saman nokkur Evrópuríki og ákváðu í sameiningu að skoða barnarimlarúm og barnaferðarúm. Einnig voru tekin til skoðunar rúm sem seld voru með aukabúnaði eins og skiptiborði sem fest var á rúmin. Mikill fjöldi rúma var skoðaður og af þeim valin 50 rúm sem talið var ætti að athuga nánar.

Niðurstöðurnar voru ekki góðar en 80% af þeim 50 rúmum sem send voru til prófunar voru talin hættuleg og helmingur rúmanna var það stórhættulegur börnum að taka þurfti þau af markaðnum. Það kom á óvart að enn eru á markaði rúm með hengingarhættu, einnig voru rúm sem brotnuðu við lítið átak og í einu rúmi fannst blý í málningunni. Það komu fram hönnunargallar þar sem börn gátu náð fótfestu og því klifrað auðveldlega fram úr rúmunum. Einnig voru læsingar í ólagi þannig að barn gæti náð að skríða undir lausa hlið en árið 2014 lést ungt barn í Hollandi þar sem það skreið undir rúmið og hliðin festist á hálsinum. Hliðar á rúmum eiga að vera læstar hvort sem þær eru í efstu stöðu eða lægstu. Þetta eru aðeins nokkur atriði sem fundust þegar rúmin voru skoðuð.

Í fyrsta sinn var einnig skoðað hvaða tegund af efni væri notuð í ferðarúm og hversu vel efnið andaði. Niðurstöður þessarar athugunnar verða skoðaðar nánar hjá Evrópusambandinu og þá hvort að krafa verður gerð um að þau efni sem eru notuð í ferðarúm séu þannig gerð að súrefni flæði í gegn um það.

Hægt er að skoða inn í Rapex tilkynningarkerfinu hvaða rúm er um að ræða hér.

TIL BAKA