Sölubann og innköllun á Basson Baby barnarúmi
Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um sölubann og innköllun á Basson Baby barnarúmi af gerðinni Julia frá Ólavíu og Oliver.
Ólavía og Oliver hafði áður innkallað rúmið þar sem hönnunargallar á því gerðu það að verkum að rúmið reyndist vera hættulegt börnum. Hætturnar fólust m.a. í því að af rúminu gæti stafað hengingarhætta af því hvernig horn þess væru hönnuð. Jafnframt voru hliðar rúmsins með gölluðum læsingum sem virkuðu ekki alltaf auk þess sem ekki var hægt að festa þær í neðri stöðu. Þá var braut sem notuð var til að færa hliðina upp og niður þannig hönnuð að barn gat notað hana sem fótfestu og klifrað upp úr rúminu auk þess sem hætta var á að börn gætu klemmt sig. Verslunin ætlaði að láta lagfæra rúmin svo að þau væru í lagi. Neytendur voru hvattir til að hætta strax notkun barnarúmanna og hafa samband við Ólavíu og Oliver sem höfðu selt rúmin frá árinu 2008.
Ólavía og Oliver gat ekki veitt Neytendastofu fullnægjandi upplýsingar um það hvernig staðið væri að lagfæringu á þeim rúmum sem seld höfðu verið eða sýnt fram á með prófunarskýrslu að rúmin væri örugg eftir lagfæringu. Taldi Neytendastofa því ekki hjá því komist að leggja formlegt bann við sölu og afhendingu á vörunni og gera Ólavíu og Oliver að afturkalla hana frá neytendum og endurgreiða þeim kaupverðið.
Foreldrar eiga að geta treyst því að börnin séu örugg í barnarimlarúmum. Þetta er einn af fáum stöðum þar sem umsjónarmenn barna eiga að geta skilið þau eftir án eftirlits í einhvern tíma og er það ein af ástæðum þess að miklar kröfur eru gerðar varðandi öryggi rúma.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér