Fara yfir á efnisvæði

Lög um neytendasamninga hafa tekið gildi

08.06.2016

Neytendastofa hefur sinnt eftirliti með ákvæðum laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Lögin hafa nú verið felld úr gildi með gildistöku nýrra laga um neytendasamninga. Megintilgangur laga um neytendasamninga er hinn sami og laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga var, að tryggja neytendum nægar upplýsingar og ýmis réttindi við kaup á vörum og þjónustu. Lögin eru ófrávíkjanleg en seljendur mega veita neytendum betri rétt heldur en lögin kveða á um.

Helstu ákvæði laganna gilda um kaup á Netinu og utan fastrar starfsstöðvar seljanda en þar er einnig að finna ákvæði sem snýr að upplýsingagjöf við sölu í verslunum. Gildissvið nýju laganna er því víðtækara en hinna eldri. Aðrar helstu breytingar eru þær að gerðar eru ítarlegri kröfur um að seljandi veiti neytendum upplýsingar.

Þá er vert að nefna að eftir sem áður hafa neytendur 14 daga frest til að hætta við kaup og fá kaupverð að fullu endurgreitt þegar kaupin fara fram við fjarsölu eða utan fastrar starfsstöðvar. Réttur neytenda í þessum tilvikum hefur þó verið bættur þar sem seljandi á að endurgreiða neytanda innan 14 daga en áður hafði hann frest í 30 daga til að endurgreiða.

Neytendur geta kynnt sér reglur laganna betur hér

TIL BAKA