Fara yfir á efnisvæði

Héraðsdómur staðfestir ákvörðun Neytendastofu

13.06.2016

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest þá niðurstöðu Neytendastofu og áfrýjunarnefndar neytendamála að smálánafyrirtækin Kredia og Smálán hafi brotið gegn lögum um neytendalán með innheimtu flýtigjalds.

Þannig hefur hérðasdómur staðfest að gjaldið skuli vera inni í útreikningum heildarlántökukostnaðar og árlegrar hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK) sem leiðir til þess að ÁHK verður hærri en leyfilegt hámark samkvæmt lögunum.

Í dómnum er einnig um það fjallað að ákvæði laganna um hámark ÁHK sé ekki í andstöðu við stjórnarskrá.

Kredia og Smálán höfðu breytt starfsemi sinni og í stað þess að krefjast flýtigjalds er neytendum seld rafbók þar sem þeim er um leið boðið að taka lán. Neytendastofa tók nýverið ákvarðanir gagnvart fyrirtækjunum þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að kaupverð rafbóka skyldi meðhöndlað sem kostnaður við lántöku, sem aftur leiðir til þess að kostnaður af láni fer yfir leyfilegt hámark ÁHK. Frestur fyrirtækjanna til að kæra þá ákvörðun til áfrýjunarnefndar er ekki liðinn. Dómur héraðsdóms hefur ekki bein áhrif á það mál en styrkir þó þá afstöðu Neytendastofu að takmarka þurfi þann kostnað sem neytendur eru krafðir um við lántöku.

Að lokum skal tekið fram að Neytendastofa hefur ekki heimild til að kveða á um hvernig fara skuli með mögulegar endurgreiðslur kostnaðar sem neytendur hafa greitt. Aðilar verða að leysa úr því sín í milli með samkomulagi, fyrir úrskurðanefnd í viðskiptum við fjármálafyrirtæki eða eftir atvikum að fela dómstólum að leysa úr slíkri kröfu.


TIL BAKA