Auglýsingar um neytendalán
Neytendastofa fylgist vel með auglýsingum um neytendalán, m.a. varðandi birtingu og útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK). Í mörgum tilvikum skortir upplýsingar um ÁHK og yfirleitt var útreikningur fyrirtækjanna á ÁHK rangur. Langflestum málum hefur lokið án þess að beita þyrfti valdheimildum enda voru útreikningar leiðréttir og bætt úr upplýsingagjöf í auglýsingum í kjölfar athugasemda Neytendastofu. Tveimur málum lauk þó með ákvörðun Neytendastofu þar sem fyrirtækin leiðréttu útreikninga sína en gerðu ekki fullnægjandi breytingar á upplýsingum á heimasíðum sínum, innan loka frests til úrbóta. Fyrirtækin gerðu þá viðeigandi úrbætur á vefsíðum sínum innan tiltekins tíma frá birtingu ákvarðananna og því kom ekki til þess að teknar væru dagsektarákvarðanir.