Fara yfir á efnisvæði

Eftirlit með skartgripum

22.08.2016

Fulltrúi Neytendastofu hefur í sumar kannað ástand ábyrgðastimpla vegna sölu skartgripa unnum úr eðalmálmum.Tilgangurinn var að fá yfirlit yfir hvernig staðan er varðandi lögbundna stimpla á skartgripum unnum úr gulli og silfri. Í júlí var farið í skartgripa- og snyrtivöruverslanir í Smáralind og Kringlunni, en áður hafði verið farið í verslanir í minni verslunarkjörnum sem selja skartgripi. Þær snyrtivöruverslanir sem farið var í voru ekki að selja vörur úr eðalmálmum.

Ábyrgðastimplarnir sem um ræðir eru nafnastimpill og hreinleikastimpill. Nafnastimpill auðkennir framleiðanda, seljanda eða innflytjanda vöru þannig að hægt sé að rekja uppruna vörunnar. Hann þarf að vera samþykktur og skráður hjá Neytendastofu. Listinn yfir skráða íslenska nafnastimpla og eigendur þeirra er hægt að skoða á heimasíðu Neytendastofu. Hreinleikastimpill segir til um þann hreinleika sem seljendur lofa við sölu á vörunni. Það er þriggja tölustafa stimpill sem sýnir hversu mikið magn af hreinu gulli, silfri, platínu eða palladíum er í viðkomandi vöru. Sem dæmi ef að hreinleikastimpillinn er 585, þá inniheldur varan 58,5% af hreinu gulli.

Af þeim 15 skartgripaverslunum sem farið var í voru athugasemdir gerðar í sex verslunum, þar af hafa tvær verslanir þegar lagfært ábyrgðastimpla á sinum vörum.

Neytendastofa hvetur neytendur sem ætla að kaupa skartgripi unna úr eðalmálmum til að kaupa aðeins slíkar vörur ef þær eru með ábyrgðarstimplum. Mikilvægt er að neytendur passi sjálfir upp á að þær merkingar sem eiga að vera á vörunni séu fyrir hendi eða að þær fylgi.

TIL BAKA