Markaðssetning iKort á greiðslukortum
Neytendastofu barst erindi Íslandsbanka hf. og Kreditkorta þar sem kvartað var yfir markaðssetningu iKort ehf. á greiðslukortinu iKort. Töldu Íslandsbanki og Kreditkort að iKort hefði brotið gegn lögum með villandi og ósanngjörnum samanburðarauglýsingum.
Í kynningarefni á vefsíðu iKort var meðal annars að finna fullyrðingarnar „Hvernig er iKortið öðruvísi en önnur kort?“ og „Ekki þarf að fylla út eyðublöð eða fara í greiðslumat í banka“. Í auglýsingu frá iKort var birt mynd af debetkorti Íslandsbanka þar sem einnig komu fram fullyrðingarnar: „Ekki neinar áhyggjur af færslugjöldum“, „Þegar þú notar debetkortið þitt borgar þú 18 til 35 krónur í færslugjald í hvert sinn sem kortið er notað“ og „En þegar þú notar iKortið þitt borgar þú ekkert færslugjald“.
Neytendastofa taldi að um væri að ræða samanburðarauglýsingar. Að mati Neytendastofu voru auglýsingarnar villandi og ósanngjarnar gagnvart Íslandsbanka og Kreditkort þar sem engir fyrirvarar voru gerðir um þær tegundir korta sem samanburðurinn næði til. Neytendastofa taldi því rétt að banna frekari birtingu auglýsinganna.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.