Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa kannar hávaða í leikföngum

21.03.2017

FréttamyndNeytendastofa skoðaði á síðasta ári hvort að hávaði í leikföngum væri fyrir ofan hávaðamörk og því hættulegur börnum.

Það er erfitt að gera sér grein fyrri hversu skaðleg áhrif hávaði í leikföngum hefur á heyrn barna, til lengri eða skemmri tíma. Mikilvægt er að hafa í huga að börnin koma til með að heyra hávaðann frá leikfanginu oft á dag. Heyrnaskaði meðal barna hefur aukist enda er það svo að einn afmarkaður hávaði frá leikfangi getur orsakað það að barn tapar heyrn á ákveðnu hljóðsvæði og varanlegum skaða á heyrn. Mismunandi hávaðamörk eru eftir leikföngum og flokkun þeirra en hljóð yfir 85 decibel getur skaðað heyrn barna. Því hærra hljóð því styttri tíma getur það tekið til að valda heyrnaskaða t.d ef hljóð mælist um 85 decibel í 8 klukkustundir getur það valdið skaða en ef hljóðið mælist yfir 110 decibel þá getur það tekið einungis 15 mín.

Neytendastofa tók þátt í evrópsku samstarfsverkefni ásamt 15 öðrum ríkjum þar sem athugað var hvort leikföng sem gefa frá sér hljóð eins hringlur, spiladósir og t.d leikfangasímar væru undir leyfilegum hávaðamörkum. Farið var í 466 fyrirtæki og yfir 2300 tegundir af leikföngum skoðuð, af þeim voru valdar 389 tegundir sem send voru til Frakklands á prófunarstofu.

Af þeim 389 leikföngum sem send voru á prófunarstofuna voru 38 af þeim sem stóðust ekki kröfur um hávaðamörk, þau leikföng sem komu verst út voru blástursleikföng og leikfangabyssur. Neytendastofa skoðaði yfir 60 tegundir af leikföngum hér á landi og voru 17 af þeim prófuð. Leikföngin sem Neytendastofa kannaði á íslenskum markaði komu öll vel út og stóðust allar kröfur.

Neytendastofa vill koma á framfæri að fólk ætti ekki að bera leikfang sem gefur frá sér hávaða upp að eyra barns til þess að þau heyri hljóðið betur. Slíkt ber að varast nema leikfangi sé sérstaklega ætlað að nema við eyra en í þeim tilfellum á hámarkshljóð frá leikfangi að taka mið af þeirri notkun. Barn sem liggur í rúmi með spiladós við eyrað nemur hávaða á annan hátt en þeir sem standa til hliðar. Stöðugt hljóðáreiti getur bæði gert barn órólegt og til lengri tíma skaðað heyrn. Staðsetning hávaðaleikfanga skiptir því jafn miklu máli og rétt notkun.

Hægt er að nota sérstakt app sem gefur vísbendingu um hávaða, það getur reynst vel þegar velja á leikfang fyrir barn eins og  t.d. Decibel 10: dB Sound Meter (SPL), Decibel Meter eða dB Sound Level Meter.

Börn hafa ekki þroska til þess að meta hvort leikföng þeirra séu örugg eða ekki. Kaupendur leikfanga verða því að vera vel á verði, athuga hvort CE merki sé til staðar, skoða varúðarmerkingar vel, lesa og fara eftir leiðbeiningum en síðast en ekki síst velja leikföng sem hæfa aldri og þroska barns.

Hægt er að sjá þau leikföng sem tilkynnt voru í RAPEX kerfið hér.

Ef kaupendur telja að vara uppfylli ekki kröfur og að hún sé hættuleg eru þeir hvattir til þess að hafa samband við Neytendastofu, í síma 510 1100 eða postur@neytendastofa.is.

TIL BAKA