Ársskýrsla Rapex
Rapex er tilkynningarkerfi fyrir hættulegar vörur innan Evrópska efnahagssvæðisins, hvert land hefur sinn tengilið, en á Íslandi er það Neytendastofa. Gefin hefur út ársskýrsla Rapex fyrir árið 2016.
Samtals bárust alls 2044 tilkynningar í Rapex kerfið um hættulegar vörur. Flestar tilkynningarnar bárust vegna leikfanga (26%), bifreiða (18%) og fatnaðar og fylgihluta (14%). Algengustu hætturnar fyrir neytendur voru líkamstjón (25%), efnahætta (23%) og köfnunarhætta (11%). Fjölgun hefur orðið á milli ára vegna innkallaðra bifreiða úr 10% í 18% og það getur verið ástæðan fyrir því að líkamstjón sé algengasta hættan árið 2015 og fór ofar en efnahætta sem var efst á árinu 2014. Hér á landi fundust alls 43 vörur sem tilkynntar voru í Rapex. Flestar þessara tilkynninga vörðuðu vélknúin ökutæki og barnavörur.
Mikið af vörum sem tilkynntar hafa verið í Rapex koma frá löndum utan ESB, aðallega frá Kína. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríkin vinna reglulega með kínverskum yfirvöldum og skiptast á upplýsingum um hættulegar vörur, eru nú komin tíu ár frá því það samstarf hófst. Kínversk yfirvöld geta með þessu móti rakið framleiðenda vörunnar og komið í veg fyrir að hættulegar vörur berist út á markaðinn.
Ársskýrslu Rapex má í heild sinni finna hér.
Evrópusambandið birtir vikulega yfirlit á vefsíðu Rapex yfir hættulegar vörur. Á vefnum er gagnasafn sem inniheldur upplýsingar um meira en 19.000 vörur. Fyrirtæki ættu að kíkja á heimasíðuna reglulega. Með því að skoða vikulegar tilkynningar og vera upplýst um áhættur viðkomandi vöruflokka geta fyrirtæki komið í veg fyrir að hættulegar vörur berist neytendum og valdi slysum.
Neytendastofa vill beina þeim tilmælum til framleiðenda að tryggja öryggi vara sem að þeir hyggjast setja á markað áður en að framleiðsla þeirra hefst með því að kynna sér þær reglur sem gilda um framleiðslu vörunnar. Þá hvetur stofnunin neytendur til þess að vera á verði og koma ábendingum um gallaðar eða hættulegar vörur til Neytendastofu á netfangið postur@neytendastofa.is