Mitsubishi Motors innkallar Mitsubishi Pajero
Neytendastofu hefur borist tilkynning frá Heklu um innköllun á Mitsubishi Pajero árgerð 2007 til 2012 vegna öryggispúða frá framleiðandanum Takata.
Ástæða innköllunar er að ef árekstur uppfyllir skilyrði til að öryggispúði eigi að blása út, geta málmflísar úr púðahylki losnað og valdið meiðslum á farþegum.
Þessi bilun hefur ekki komið fram í bílum frá Mitsubishi Motors. Í bílum frá öðrum framleiðendum með öryggispúða frá Takata hefur þessi galli aðeins komið fram í löndum þar sem hita og rakastig er hátt og er óþekkt í Evrópu.
Viðgerð felst í að skipt verður um púðahylki fyrir öryggispúða í stýri og í mælaborði.
Hekla hf hefur selt 460 bíla sem falla undir þessa innköllun. Eigendum þeirra verður sent bréf þegar varahlutir koma til landsins.
Neytendastofa hvetur bifreiðaeigendur til að fylgjast vel með hvort að verið sé að innkalla þeirra bifreiðar og hafa samband Heklu ef þeir eru í vafa.