Fara yfir á efnisvæði

Gagnaveita Reykjavíkur sektuð vegna ummæla framkvæmdastjóra

04.12.2017

Síminn hf. kvartaði til Neytendastofu vegna blaðagreinar framkvæmdastjóra Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. sem birtist í Fréttablaðinu þann 16. nóvember 2016. Í blaðagreininni var fjallað um ljósleiðaravæðingu og þjónustu Símans og Gagnaveitunnar.

Neytendastofa taldi ummælin vera sett fram í tengslum við samkeppni fyrirtækjanna og að framkvæmdastjórinn kæmi fram fyrir hönd Gagnaveitunnar. Neytendastofa taldi að ummælin væru ófullnægjandi og ósanngjörn gagnvart Símanum og að þau brytu gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Var Gagnaveitunni bannað að viðhafa slíka viðskiptahætti.

Þar sem Gagnaveitan hafði áður brotið gegn ákvæðum laganna með sambærilegum hætti gagnvart Símanum taldi Neytendastofa tilefni til að beita sektum í samræmi við heimildir laganna. Var Gagnaveitan því sektuð um 500.000 kr. vegna viðskiptaháttanna.

Neytendastofa bendir á að fyrirtækjum er ekki bannað að tjá sig um keppinauta sína eða viðskiptahætti þeirra en með lögum eru þó settar ákveðnar skorður við því að það sé gert með ósanngjörnum hætti eða að vegið sé að keppinautum.

Ákvörðunina má nálgast hér.

TIL BAKA