Fara yfir á efnisvæði

Dagsektir lagðar á fasteignasala

15.12.2017

Neytendastofa gerði könnun árið 2016 á upplýsingagjöf hjá fasteignasölum landsins. Skoðaðar voru vefsíður 109 fasteignasala á landinu ásamt því að kanna sölustaði þeirra sem staðsettar voru á höfuðborgarsvæðinu. Könnunin snéri að ástandi verðmerkinga á sölustað og á vefsíðum fyrirtækjanna þar sem skylt er að gefa upp verð bæði þar sem þjónusta er kynnt og seld. Einnig var kannað hvort allar tilskyldar upplýsingar um fasteignasölurnar kæmu fram á vefsíðum þeirra. Könnun Neytendastofu leiddi í ljós að einungis ein fasteignasala af 109 uppfyllti öll þau skilyrði sem lög og reglur gera til upplýsingagjafar um þjónustuna. Neytendastofa upplýsti fasteignasalana í framhaldinu um þær skyldur sem á þeim hvíla og fór fram á úrbætur þar sem þörf var á.

Haustið 2017 kannaði Neytendastofa aftur vefsíður fasteignasalanna auk nýrra aðila á markaði. Að þessu sinni voru skoðaðar 117 vefsíður og ljóst var að grípa þyrfti til aðgerða til að ná fram úrbótum. Í kjölfarið voru send bréf til 72 fasteignasala í nóvember þar sem farið var fram á úrbætur.

Þann 5. desember tók Neytendastofa ákvarðanir um dagsektir á 17 fasteignasölur sem höfðu ekki gert viðeigandi lagfæringar á vefsíðum sínum, þrátt fyrir ítrekuð bréf Neytendastofu þess efnis. 11 þeirra hafa nú þegar lagfært vefsíður sínar.

Ákvarðanirnar má nálgast hér

TIL BAKA