Samtengdar skotkökur
Neytendastofa hefur fengið fjölda ábendinga vegna fréttaflutnings um samtengdar kökur. Vegna þess viljum við koma því á framfæri að það er með öllu óheimilt að breyta skoteldum, hvort sem um er að ræða samtengingu á kökum eða breytingu á púðurmagni. Það er eingöngu framleiðandinn sem getur framleitt samtengdar kökur og er slíkt aðeins gert í samræmi við ströngustu kröfur. Þær samtengdu kökur sem Neytendastofa hefur hingað til skoðað hafa verið útbúnar af framleiðanda.
Neytendastofa vill ennfremur beina því til forráðamanna að ítreka fyrir ungmennum að fikta ekki með skotelda. Síðustu ár hafa reglulega birst fréttir af því að ungmenni hafi hlotið áverka á augum, brennst í andliti, á hálsi og höndum, sem má rekja til þess að þau hafi átt við skoteldana.
Hér að neðan eru nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga við notkun skotelda.
-Kannaðu og virtu leyfileg aldurstakmörk á skoteldum
-Notaðu öryggisgleraugu.
-Lestu leiðbeiningarnar vandlega
-Virtu fjarlægðarmörk: ef öflugir skoteldar þá 25-50 metrar
-Tryggðu að undirstaðan sé lárétt og stöðug
-Hallaðu þér aldrei yfir skoteld þegar kveikt er í
-Ekki hreyfa skoteld sem virkar ekki - helltu vatni yfir hann
Neytendastofa hvetur neytendur til að sýna aðgæslu um áramótin við meðferð skotelda.
Höfum áramótin slysalaus.