Flugeldar og niðurstöður átaksverkefnis 2015-2017
Neytendastofa tók þátt í sameiginlegri aðgerð eftirlitsstjórnvalda frá 9 aðildarríkjum á EES-svæðinu sem fara með öryggi og eftirlit með skoteldum. Alls voru 424 vörutegundir sendar til prófunar eða tæplega 5000 sýni alls eftir sýnatöku um áramót 2015-16 og 2016-17. Í ljós kom að 65% af vörunum voru ekki í samræmi við kröfur en í flestum tilvikum sýndu áhættumatsgreiningar að ekki var um alvarlega hættu að ræða fyrir neytendur. Þess má geta að þessi niðurstaða endurspeglar að mati stjórnvaldanna ekki almennt ástand á flugeldamarkaðinum enda markmið aðgerðarinnar að finna og taka af markaði vörur sem ekki uppfylla kröfur laga, reglugerða og staðla sem gilda um framleiðsluna. Árið 2015-16 voru alls 275 sýni tekin af 25 vörutegundum á Íslandi og send til prófunar hjá LOM á Spáni. Kom í ljós að 18 vörutegundir voru ekki framleiddar í samræmi við við kröfur og féllu á prófun gagnvart öryggi vörunnar og uppfyllltu ekki áskildar reglur um merkingar, eða alls um 72% þeirra sýna sem aflað var. Um áramótin 2016-17 voru 209 sýni vegna 19 vörutegunda þar af tvær tegundir af handblysum sem send voru eftir á til prófunar, vegna gruns um galla. Kom í ljós að 12 vörutegundir voru ekki í lagi og 9 vörutegundir sýni féllu bæði gagnvart prófun á öryggiskröfum og kröfum um merkingar vörunnar, eða alls 72% sýna sem send voru til prófunar. Neytendastofa setti sölubann á skotelda sem enn voru til hjá söluaðilum sem samkvæmt niðurstöðum í áhættumati voru taldir hafa alvarlega hættu í för með sér gagnvart neytendum. Á heimasíðu stofnunarinnar, sjá ákvarðanir, má finna ákvarðanir um sölubönn sem stofnunin hefur sett á skotelda.
Í kafla 5.2 í skýrslu um prófun á skoteldunum er að finna lista yfir þær hættur sem fylgja mismunandi tegundum skotelda eftir gerð þeirra og virkni. Nánar um aðferðir og niðurstöður aðgerðarinnar má lesa í skýrslu sem er hér.