N1 hættir sölu á endurskinsprey
12.01.2018
Neytendastofu hefur borist tilkynning frá N1 um að búið sé að taka úr sölu endurskinsprey frá ALBEDO, þar sem komið hefur í ljós að varan uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru til endurskins.
Varan var auglýst sem endurskinsvara meðal annars fyrir börn svo þau væru sýnileg á leiðinni í skólann. Neytendastofa bendir fólki á að nota ekki spreyjið í staðinn fyrir endurskinsmerki.
Neytendastofa vill nota tækifærið og minna fólk á að öll endurskinsmerki eiga að vera CE merkt.