Fara yfir á efnisvæði

Samstarf norræna neytendastofnana stuðlar að öflugri neytendavernd

30.05.2018

FréttamyndNeytendastjórnvöld í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð hittust í Reykjavík 23.-25. maí til að ræða sameiginlegar áskoranir á sviði neytendamála og til að samræma eftirlitsáherslur. Norrænt samstarf verður þróað frekar til að stöðva óréttmæta viðskiptahætti og ósanngjarna samningsskilmála á Norðurlöndunum.
Netvæðing, stór alþjóðleg fyrirtæki, rafræn viðskipti og markaðssetning yfir landamæri valda erfiðleikum í neytendavernd og torvelda neytendayfirvöldum að framfylgja lögum með skilvirkum hætti.
Áframhaldandi norrænt samstarf er afar þýðingarmikið til að koma í veg fyrir og stöðva óréttmæta viðskiptahætti og óréttmæta samningsskilmála á Norðurlöndunum.
Á fundinum í ár samþykktu stjórnvöldin að þróa frekar samvinnu vegna fyrirtækja sem starfa yfir landamæri. Miðlun upplýsinga og umræður um raunveruleg álitaefni, í vinnuhópum og á veffundum, hefur reynst árangursrík og verður þróuð frekar. Sérstök áhersla verður lögð á nokkur svið á komandi ári:
- Netvæðing, persónusniðin markaðssetning, notkun gagna frá neytendum og ósanngjörn markaðssetning gagnvart börnum
- Duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum
- Nýjar viðskiptaaðferðir í lánamálum
- Áskriftargildrur
- Lögfesting á nýjum reglum um Evrópusamstarf á sviði neytendamála og breytingar á gildandi lögum um neytendalöggjöf í ESB
Norrænu neytendastofnanirnar munu vinna saman á öllum þessum sviðum með því að undirbúa sameiginlegar yfirlýsingar auk þess að samræma eftirlit og fullnustu í ákveðnum tilvikum.

Að loknum fundi var hópnum boðið í heimsókn til Bessastaða þar sem forsetinn tók á móti þeim.

TIL BAKA