Auðkennið Örugg eyðing gagna
Neytendastofu barst erindi Gagnaeyðingar ehf. þar sem kvartað var yfir notkun Íslenska gámafélagsins ehf. á auðkenninu „Örugg eyðing gagna“. Gagnaeyðing vísaði til þess að félagið hafi notað slagorðið frá á árinu 1998 og að það hafi verið notað með markvissum hætti frá árinu 2008. Taldi Gagnaeyðing að notkun Íslenska gámafélagsins á auðkenninu væri til þess fallin að valda ruglingi milli fyrirtækjanna.
Íslenska gámafélagið hafnaði því að notkunin bryti gegn rétti Gagnaeyðingar. Var m.a. bent á að Gagnaeyðing hafi sótt um skráningu vörumerkisins hjá Einkaleyfastofunni og skráningunni verið hafnað. Orðasambandið njóti því ekki vörumerkjaréttar og muni ekki gera það.
Neytendastofa taldi að þrátt fyrir að auðkennið skorti sérkenni sem slíkt, þá yrði að líta til markaðsfestu þess. Gögn málsins báru með sér umfangsmikla og markvissa notkun auðkennisins í ýmsum fjölmiðlum. Neytendastofa taldi að veita bæri auðkenninu vernd og að notkun Íslenska gámafélagsins á því hafi falið í sér villandi upplýsingagjöf sem væri til þess fallin að hafa áhrif á eftirspurn þjónustu. Íslenska gámafélaginu var því bönnuð notkun auðkennisins.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.