Nýjar reglur tryggja betri vernd ferðamanna
Þann 1. júlí tóku gildi í Evrópu reglur sem auka rétt ferðamanna sem bóka pakkaferð. Reglurnar hafa verið innleiddar hér á landi en taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2019.
Frá gildistökunni munu hefðbundnar pakkaferðir ekki aðeins falla þar undir, því nýju reglurnar veita þeim sem bóka ferðir með öðrum hætti einnig vernd, þ.m.t. þeir ferðamenn sem setja sjálfir saman pakka með því að velja mismunandi tegundir ferðatengdrar þjónustu á sama sölustað, hvort sem það er gert á netinu eða starfsstöð fyrirtækis. Nýju reglurnar taka einnig til samtengdrar ferðatilhögunar, þegar ferðamaður kaupir ferðatengda þjónustu á einum sölustað en gegnum ólíkar bókunarleiðir eða ef honum er boðið að kaupa ferðatengda þjónustu af annarri vefsíðu eftir að hafa gengið frá kaupum á ferðatengdri þjónustu.
Helstu kostir nýju reglnanna fyrir ferðamenn:
Skýrari upplýsingar: Seljendur verða að upplýsa ferðamenn um það hvort þeir eru að kaupa pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun og um helstu réttindi þeirra, á stöðluðu formi. Þeir verða að veita skýrar upplýsingar um einkenni ferðarinnar, verð hennar og öll viðbótargjöld.
Endurgreiðsla og heimflutningur við ógjaldfærni: Fyrirtæki sem selja pakkaferðir verða að hafa viðeigandi tryggingar. Þær tryggja að ferðamenn fá fulla endurgreiðslu ef skipuleggjandi verður ógjaldfær eða gjaldþrota. Þessi trygging á líka við um samtengda ferðatilhögun.
Skýrari ábyrgðarreglur: Skipuleggjandi pakkaferðar er ábyrgur ef eitthvað fer úrskeiðis, óháð því hver veitti ferðatengdu þjónustuna.
Sterkari réttur til afpöntunar: Með nýju reglunum geta ferðamenn afpantað pakkaferð af hvaða ástæðu sem er gegn því að greiða sanngjarnt gjald. Þeir mega afpanta ferðina án kostnaðar ef ferðastaðurinn verður hættulegur, t.d. vegna stríðs eða náttúruhamfara eða ef verðið á pakkaferðinni hækkar um meira en 8% frá upphaflegu verði.
Gisting ef ekki er hægt að flytja ferðamann heim: Ef ferðamaður kemst ekki heim úr ferðinni á tilsettum tíma, t.d. vegna náttúruhamfara, á að sjá honum fyrir gistingu í allt að þrjár nætur. Önnur réttindi þessu tengdu er fjallað um í reglugerð um réttindi flugfarþega.
Aðstoð til ferðamanna: Skipuleggjandi pakkaferðar verður líka að bjóða ferðamönnum aðstoð vegna vandamála sem upp koma í ferðinni, sérstaklega með því að veita upplýsingar um heilbrigðisþjónustu og ræðisaðstoð.
Helstu kostir nýju reglnanna fyrir seljendur:
Skýrari reglur auðvelda viðskipti yfir landamæri: Seljendur þurfa nú að fylgja sömu reglum, bera sömu upplýsingaskyldu, ábyrgð og aðrar skyldur allsstaðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Tryggingakerfi hvers ríkis er einnig viðurkennt í öðrum EES-ríkjum. Þetta gerir seljendum kleyft að eiga viðskipti allsstaðar í Evrópu, rétt eins og þeir séu í heimaríki.
Uppfærð upplýsingaskylda tekur ekki lengur bara til auglýsingabæklinga: Áætlað er að sú breyting að seljendur þurfa ekki lengur að endurprenta bæklinga geti sparað þeim háar fjárhæðir.
Minnkuð reglubyrgði: Seljendur sem starfa á grundvelli rammasamnings falla ekki lengur undir reglurnar.
Innleiðing reglnanna hér á landi hefur verið gerð með lögum nr. 95/2018, um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Þau taka þó ekki gildi hér á landi fyrr en 1. janúar 2019.
Fréttatilkynningu Evrópusambandsins vegna gildistökunnar má lesa hér: http://europa.eu/rapid/press-release_IP-18-4293_en.htm