Ófullnægjandi upplýsingagjöf við lánveitingu
Neytendastofa hefur tekið ákvarðanir gagnvart þremur fyrirtækjum sem veita neytendalán vegna skorts á upplýsingum við lánveitingu. Í lögum um neytendalán er lögð rík upplýsingaskylda á lánveitendur í auglýsingum, fyrir samningsgerð og við samningsgerð. Gert er ráð fyrir að upplýsingar sem veittar eru fyrir samningsgerð komi fram á sérstöku formi til að auðvelda neytendum samanburð á lánum.
Neytendastofa óskaði eftir upplýsingum frá lánveitendunum Aur, Pei og Greitt ásamt afriti af þeim gögnum sem neytendum eru veitt þegar þeir taka lán. Hjá öllum lánveitendum vantaði tilteknar upplýsingar annars vegar í svokallað staðlað eyðublað og hins vegar í lánssamning. Stofnunin hefur tekið ákvörðun um að bæta skuli úr upplýsingagjöf innan fjögurra vikna. Aur og Pei hafa þegar tilkynnt Neytendastofu að hafist sé handa við að gera viðunandi breytingar.