Fara yfir á efnisvæði

Auðkennið Iceland Highlights

02.08.2018

Neytendastofu barst erindi M&T Investment ehf. þar sem kvartað var yfir notkun Iceland Highlights Travel ehf. á auðkenninu Iceland Highlights. M&T Investment vísaði m.a. til þess að einn stofnandi M&T Investment hafi skráð lénið iceland-highlights.com þann 9. nóvember 2015. Sótt hafi verið um skráningu vörumerkisins Iceland Higlights þann 4. júlí 2017 sem orð- og myndmerki. Taldi M&T Investment að notkun Iceland Highlights Travel á auðkenninu væri til þess fallin að valda ruglingi milli fyrirtækjanna.

Iceland Highlights Travel mótmælti öllum fullyrðingum M&T Investment um að félagið hafi öðlast nokkurn vörumerkjarétt yfir auðkenninu Iceland Highlights, hvort sem er á grundvelli notkunar eða vegna skráningar framangreinds vörumerkis. Vísaði Iceland Highlights Travel m.a. til þess að félagið hafi verið skráð í fyrirtækjaskrá í október 2016. Taldi Iceland Highlights Travel að M&T Investment hafi ekki lagt fram nein gögn sem stutt hafi fyrri notkun félagsins á auðkenninu.

Neytendastofa taldi m.a. með vísun til þess að bókunarþjónustan Iceland Highlights, á kennitölu eins stofnanda M&T Investment, hafi notað auðkennið Iceland Highlights við sölu á ferðaþjónustu a.m.k. frá 16. mars 2016 að félagið hafi einkarétt til auðkennisins. Iceland Highlights Travel var því bönnuð notkun auðkennisins, lénanna icelandhighlights.is og icelandhighlights.com. Ennfremur var félaginu gert að afskrá heitið Iceland Highlights Travel ehf. í firmaskrá Ríkisskattstjóra ásamt því að afskrá lénið hjá ISNIC lénaskrá.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA