Tilkynningarskylda um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur sem innihalda nikótín
Ný lög um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur sem innihalda nikótín munu taka gildi 1. mars á næsta ári. En nú í september tekur gildi samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna tilkynningarskylda. Samkvæmt henni verða framleiðendur og innflytjendur að tilkynna rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur sem innihalda nikótín til Neytendastofu. Tilkynningin verður að berast sex mánuðum áður en markaðssetning er fyrirhuguð. Einnig þarf að leggja fram nýja tilkynningu fyrir hverja umtalsverða breytingu á vörunni.
Í lok næstu viku verður komið inn á heimasíðu Neytendastofu rafrænt tilkynningareyðublað. Það þarf eitt eyðublað fyrir hverja vöru.
Með hliðsjón af því hvort varan er rafretta eða áfylling skal tilkynningin innihalda eftirfarandi upplýsingar og viðeigandi gögn um:
1. Heiti og samskiptaupplýsingar framleiðanda, ábyrgs lögaðila eða einstaklings og, ef við á, innflytjanda.
2. Upplýsingar um evrópskt rafrettuauðkenni, ef varan hefur hlotið slíkt.
3. Skrá yfir öll innihaldsefni í vörunni og losun sem leiðir af notkun vörunnar, eftir vöruheiti og tegund, þ.m.t. magn.
4. Eiturefnafræðileg gögn að því er varðar innihaldsefni vörunnar og losun, þ.m.t. þegar hún er hituð, einkum að því er varðar áhrifin af vörunni á heilbrigði neytenda við innöndun og meðal annars að teknu tilliti til allra ávanabindandi áhrifa.
5. Upplýsingar um nikótínskammta og upptöku þess við neyslu við eðlileg eða sæmilega fyrirsjáanleg skilyrði.
6. Lýsingu á efnisþáttum vörunnar, þ.m.t., eftir atvikum, opnunar- og áfyllingarbúnaði rafrettna og áfyllinga.
7. Lýsingu á vinnsluferli, þ.m.t. hvort það feli í sér raðframleiðslu, og yfirlýsingu þess efnis að vinnsluferlið tryggi samræmi við ákvæði laga nr. 87/2018 og laga nr. 134/1995.
8. Yfirlýsingu þess efnis að framleiðandinn og innflytjandinn beri fulla ábyrgð á gæðum og öryggi vörunnar þegar hún er sett á markað og notuð við eðlileg og sæmilega fyrirsjáanleg skilyrði.
9. Mynd af umbúðum vörunnar.
Ef Neytendastofa telur að framlagðar upplýsingar séu ófullnægjandi er henni heimilt að óska eftir viðbót við viðkomandi upplýsingar.
Óheimilt verður að flytja inn eða markaðssetja vöru sem ekki hefur verið tilkynnt og uppfylla ekki skilyrði laganna að öðru leyti. Upplýsingar um tilkynningar á vörum sem uppfylla skilyrði laganna munu birtast á vef Neytendastofu.