Fara yfir á efnisvæði

Villandi auglýsingar á orkudrykknum Ripped bannaðar

05.10.2018

Neytendastofu bárust ábendingar um fullyrðingar í auglýsingum Fitness Sport á orkudrykknum Ripped. Fullyrðingarnar vörðuðu annars vegar meintan heilsufarslegan ávinning af neyslu orkudrykkjarins og hins vegar vinsældir hans. Í kjölfar ábendinganna óskaði Neytendastofa eftir skýringum Fitness Sport.
Í svari Fitness Sport kom m.a. fram að fullyrðingarnar um heilsufarslegan ávinning af neyslu vörunnar væru ekki lengur í gangi og hafi ekki verið um nokkurn tíma. Þá vísuðu þeir til sölutalna varðandi fullyrðingar um vinsældir drykkjarins.
Í ákvörðun kom fram að enn væru í gangi auglýsingar þar sem heilsufarslegur ávinningur af neyslu drykkjarins væri tíundaður. Þar sem Fitness Sport hefði ekki lagt fram nein gögn til að færa sönnur á umræddar fullyrðingarnar við meðferð málsins bannaði Neytendastofa fullyrðingarnar.

Með ákvörðuninni var Fitness Sport bönnuð birting fullyrðinganna og gert að fjarlægja þær auglýsingar sem innihalda fullyrðingarnar af samfélagsmiðlum.

TIL BAKA