Nettó innkallar “Chalk-a-doos” krítarleikfangapakka
Neytendastofa vekur athygli á innköllun Nettó á krítarleikfangapakkanum “Chalk-a-doos”, sem verslunin hafði til sölu fyrir stuttu. Alls seldust um 18 eintök af pökkunum.
Ástæða innköllunarinnar er sú að leikfangið reyndist ekki CE-merkt og ekki hefur verið sýnt fram á öryggi vörunnar.
Viðskiptavinum Nettó er boðið upp á að skila vörunni í verslanir Nettó.
Neytendastofa vill ítreka að öll leikföng, sem markaðssett eru hér á landi, eiga að vera CE merkt. CE merkið er staðfesting á því að vara sé í samræmi við allar kröfur sem gerðar eru til hennar í lögum, reglugerðum og stöðlum. Með því að CE merkja vöruna staðfestir framleiðandinn að hann hafi uppfyllt allar viðeigandi lagakröfur, s.s. um öryggi, heilsu og umhverfi.