Ný lög um rafrettur
Neytendastofa fer með markaðseftirlit með nýjum lögum um rafrettur og áfyllingar sem taka gildi í dag. Héðan í frá má aðeins flytja inn og selja rafrettur sem eru með barnalæsingu og teljast öruggar, þannig að þær leki ekki og að í þeim sé búnaður sem tryggir áfyllingu án leka.
Bannað er að selja eða afhenda börnum undir 18 ára aldri og áfyllingar. Þá verða þeir sem selja vörurnar einnig að hafa náð 18 ára aldri. Umbúðir mega ekki vera með texta eða myndmáli sem höfðað getur sérstaklega til barna eða ungmenna, m.a. með myndskreytingum eða slagorðum og þannig hvatt til notkunar á vörunum.
Frá og með deginum í dag má ekki heldur ekki hafa rafrettur eða áfyllingar sýnilegar viðskiptavinum. Þó er undantekning á því að sérverslunum sem selur eingöngu rafrettur og áfyllingar fyrir þær er heimilt að hafa vöru sýnilega inn í versluninni.
Neytendastofa hefur sem stjórnvald á sviði vöruöryggis heimildir til að taka sýnishorn af vöru, senda vörur til prófunar og kalla eftir upplýsingum um vörur. Auk þess getur Neytendastofa bannað sölu á vörum og farið fram á innköllun á vörum sem ekki uppfylla kröfur laganna.
Skylda er samkvæmt lögunum að hafa á umbúðunum viðvaranir um áhrif vörunnar á heilsu og leiðbeiningar um notkun og geymslu.
Reglugerð um nánari skilyrði um merkingar á umbúðum rafrettna og áfyllinga og efni upplýsingabæklings tekur gildi 1. júní 2019. Þar er m.a. gert að skilyrði að allar vörur sem innihalda nikótín séu merktar skilmerkilega á íslensku og þeim skal auk þess fylgja upplýsingabæklingur á íslensku. Eftir þann tíma mega umbúðir ennfremur ekki líkjast matvælum eða snyrtivörum.
Ekki má selja rafrettur og áfyllingar sem innihalda nikótín nema þær hafa verið tilkynntar til Neytendastofu. Það þarf að gera sex mánuðum fyrir markaðssetningu.
Þann 26. febrúar höfðu 465 tilkynningar borist um áfyllingar með nikótíni af mismunandi gerðum auk tilkynninga um 12 rafrettur. Tilkynningar bárust frá 14 aðilum, bæði söluaðilum og framleiðendum. Neytendastofa mun birta á heimasíðunni lista um þær vörur sem heimilt er að selja hér á landi. Síðustu tvo daga hefur Neytendastofa móttekið fjölda tilkynninga og er unnið að því að skrá málin. Stofnunin mun reyna að afgreiða málin eins fljótt og unnt er.